NÁMIÐ

 

 

​Nemendur leggja stund á þær námsgreinar, sem tilgreindar eru í Aðalnámskrá grunnskóla með megináherslu á praktískar/hagnýtar greinar (verk- og tæknigreinar) en minni áhersla á fræðilegar greinar (bóknámsgreinar). Að því leyti er hlutfall kennslutíma á þessum tveimur námssviðum öfugt við það sem fram kemur í Aðalnámskrá grunnskóla. Í 8. bekk er t.d. um það bil 60% af skólatímanum nýtt í praktískan hluta námsins (kynningar á náms-/starfssviðum), en 40% nýtt í hinn fræðilegri hluta (kjarnagreinar og önnur svið aðalnámskrár). Í 9. bekk er þetta hlutfall 65:35 og í 10. bekk 70:30.


Megináherslan er á tækninám/ iðnnám á ofangreindum náms-/starfssviðum. Nám á starfssviði kallar á starfshæfni (leikni, þekkingu og viðhorf) sem lærist annars vegar á vettvangi í starfssamfélagi (praktískur hluti) og hins vegar í umfjöllun um sviðið og þá þekkingu sem þarf til að sinna því (fræðilegur hluti).

Praktískur hluti námsins fer fram í framhaldsskólum sem bjóða verk- og tæknigreinar og í fyrirtækjum á viðkomandi starfssviðum; önnur kennsla fer fram í Tæknigrunnskólanum. Í praktíska eða verklega hlutanum kynnast nemendur völdum starfssviðum með vettvangsathugunum, þátttöku og viðtölum en í fræðilega eða bóklega hlutanum, meðal annars í kjarnagreinum svo sem íslensku, erlendum tungumálum og stærðfræði, er gengið út frá verklegum og tæknilegum viðfangsefnum í kennslunni.

Fræðilegur hluti námsins er þannig að nokkru marki byggður á þeim praktíska, en það er einnig gert á hinn veginn að vísað er í fræðilegar námsgreinar þegar nemendur eru að kynna sér valin starfssvið. Auk þess er nemendum hjálpað að búa sig undir flutning úr TGS í almennan grunnskóla eða framhaldsskóla, að eigin vali, með tilvísun í markmið aðalnámskrár í kjarnagreinum.

 

 

NÁMSSVIÐ/STARFSSVIÐ

 

• Bíltækni 
• Byggingatækni (húsasmíði, múrverk) 
• Flug
• Hönnun og handverk (fatahönnun, skartgripahönnun, innanhússhönnun, smíði)
• Margmiðlun (tölvunarfræði, tölvuleikjagerð, tölvufjölmiðlun)
• Raftækni (rafvirkjun, raftæknifræði)
• Skipstjórn
• Veitingatækni (matreiðsla, þjónn, framreiðsla)
• Véltækni (vélvikjun, vélsmíði)
• Þjónustutækni (hárgreiðsla, andlitssnyrting, umönnun, fótsnyrting, nudd, sjúkraliðun)